Fréttir

Aðalfundur FSKS 2020

Aðalfundur FSKS 2020 var haldinn á TEAMS fimmtudaginn 3. desember. Fundargerð og glærur er að finna á svæði félaga.

Stofnun sálfræðiráðs Landspítala

Sá tímamótaáfangi náðist í desember 2019 að stofnað var sálfræðiráð Landspítala. Formaður stjórnar ráðsins var kjörinn Jónas G. Halldórsson. Aðrir í stjórn eru Elsa Bára Traustadóttir, varaformaður, Berglind Brynjólfsdóttir, ritari, Brynhildur Scheving Thorsteinsson, Erla Björg Birgisdóttir, Haukur Örvar Pálmason og Pétur Tyrfingsson. Sálfræðiráðið var stofnað samkvæmt ákvæði í lögum um heilbrigðisþjónustu og heyrði beint undir forstjóra spítalans. Starfsgrundvelli sérfræðiráða heilbrigðisstofnana var breytt með lagabreytingu fyrr á þessu ári (2020). Breytingin tekur mið af aukinni áherslu á teymisvinnu starfsstétta og þverfaglegri heildrænni nálgun í vinnubrögðum heilbrigðisstarfsfólks með það fyrir augum að tryggja sem besta þjónustu fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra. Samkvæmt þessum breytingum geta sérfræðiráð Landspítala, svo sem læknaráð, hjúkrunarráð og sálfræðiráð, starfað áfram sem fagfélög starfsstétta. Í stað margra sérfræðiráða, sem heyra undir forstjóra, mun hins vegar koma eitt sameiginlegt fagráð fagstétta heilbrigðisstarfsfólks forstjóra til ráðgjafar. Fagráði er ætlað að vera stjórn heilbrigðisstofnunar til stuðnings og ráðgjafar þegar kemur að mikilvægum ákvörðunum sem varða innra starf og skipulag. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra setji í reglugerð nánari leiðbeiningar um hlutverk og skipan fagráða heilbrigðisstofnana. Ætla má að nýstofnað sálfræðiráð, nú sem fagfélag sálfræðinga, verði öflugur bakhjarl fulltrúa sálfræðinga í sameiginlegu fagráði fagstétta heilbrigðisstarfsfólks á spítalanum.