Fréttir

Vinnustofa um sérfræðiviðurkenninguna

Umræða um sérfræðiviðurkenningu sálfræðinga hefur ávallt verið sálfræðingum hugleikinn. Ný reglugerð um sérfræðiviðurkenningu tók alfarið gildi 1. janúar 2018 og er nú komin nokkur reynsla varðandi hana. Í samræðum sálfræðinga er oft verið að ræða kosti og galla reglugerðarinnar og ekki síður í hvaða farvegi menntunarmöguleikar til sérfræðiviðurkenningar eru í boði. Sitt sýnist hverjum og því hefur verið ákveðið í samráði með Félagi sérfræðinga í klínískri sálfræði og hvatningu frá Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík að halda vinnustofu um sérfræðiviðurkenninguna. Hún fer fram föstudaginn 9. júní frá kl. 9:00 til 12:00/13:00 í Borgartúni 6, 4ðu hæð. Guðrún Ragnarsdóttir hjá Strategíu mun stýra vinnustofunni.

Markmið með vinnustofunni er að sálfræðistéttin eigi samtal um hvernig við viljum hafa sérfræðiviðurkenninguna og að hægt sé að búa til ramma og/eða stefnu í þessum málum fyrir hönd sálfræðinga. Takmarkaður fjöldi verður þó á vinnustofunni og verður upplýst frekar um það síðar.

Við teljum mikilvægt að fá sem breiðustu þátttöku til að sem flest sjónarmið komi fram. Óskum við eftir því að þeir sem hafa áhuga á þessu verkefni setji sig í samband við Sálfræðingafélag Íslands (tryggvi@sal.is) eða Félag sérfræðinga í klínískri sálfræði (klinisksalfraedi@gmail.com).

Með kveðju, 

Tryggvi Guðjón Ingason
Formaður Sálfræðingafélags Íslands

Félagsfundur FSKS

var haldinn miðvikudaginn 22. mars 2023 kl 16:30 í samkomusalnum á LSH-Kleppi.

Á fundinum kynnti Dr. Berglind Gudmundsdottir sérfræðingur í klínískri sálfræði og yfirsálfræðingur LSH nýjar stöður sérfræðinga í sálfræðiþjónustu LSH. Það er sérstök ástæða til að óska Berglindi og hennar fólki á LSH til hamingju með þennan langþráða áfanga sem er afar mikilvægur. Einnig er ástæða til að þakka þeim sem hafa unnið að þessum áfanga um langt skeið. Það er mikilvægt stefnumál FSKS að skapaðar verði stöður sérfræðinga á sem flestum stofnunum í náinni framtíð.

Að auki fóru Kristbjörg Þórisdóttir og Sigurbjörg Jóna Ludvigsdóttir yfir stöðuna á samningum sálfræðinga við Sjúkratryggingar Íslands, undirbúning þeirra og fundi sem vinnuhópur sálfræðinga hefur átt í ráðuneyti heilbrigðismála. Það var rætt á fundinum að það sé mjög mikilvægt að vinna áfram að þessu máli og sá samningur sem settur var fram einhliða af hálfu Sjúkratrygginga sé óásættanlegur og vonandi hugsi sálfræðingar sig vel um áður en þeir fara á slíkan samning áður en hann hefur verið unninn betur.

Einnig fór Kristbjörg Þórisdóttir yfir stöðuna á sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni. Farið var yfir þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað, þær áskoranir sem sálfræðingar í heilsugæslunni hafa staðið frammi fyrir undanfarið ár og þá framtíðarsýn sem er um þessa mikilvægu uppbyggingu.

Inga Hrefna Jónsdóttir fór yfir þá vinnu sem hefur átt sér stað vegna sérfræðiviðurkenningar og fyrirhugaðan vinnudag um sérfræðiviðurkenninguna sem verður haldinn þann 9. júní n.k. Allir áhugasamir eru hvattir til að taka daginn frá.

Sigurbjörg Jóna Ludvigsdóttir kynnti að lokum sérnám í hugrænni atferlismeðferð sem fer af stað næstkomandi haust 2023. Hún kynnti afar metnaðarfulla og áhugaverða dagskrá um vinnustofur hvoru tveggja varðandi klíníska barnasálfræði og klíníska fullorðinssálfræði.

https://endurmenntun.is/namsbrautir/5525H23

Efnistök fundarins og góðar umræður bera þeim krafti sem er í starfi félags sérfræðinga gott vitni og þá spennandi vinnu sem framundan er.

Við í stjórninni þökkum félagsfólki góðan fund!

Inga Hrefna Jónsdóttir

Sigurbjörg Jóna Ludvigsdóttir

Kristbjörg Þórisdóttir

Solveig Jonsdottir

Fimm stöður sérfræðinga í klínískri sálfræði á LSH og nýr yfirsálfræðingur

Kæru félagar. Þau tímamót urðu núna eftir áramótin að auglýst var eftir 5 sérfræðingum í klínískri sálfræði í jafnmargar stöður sérfræðinga við sálfræðiþjónustu Landspítalans. Nú er orðið ljóst hvaða sálfræðingar voru ráðnir í þessar stöður en það eru klínísku sérfræðingarnir Solveig Erna Jónsdóttir, Sólveig Fríða Kjærnested, Hjördís Björg Tryggvadóttir, Berglind Brynjólfsdóttir og Drífa Björk Guðmundsdóttir. Við óskum þeim innilega til hamingju með stöðurnar og hlökkum til að heyra meira frá sérfræðingsstöðugildum á LSH á næsta félagsfundi okkar 22. mars en þá mun Berglind Guðmundsdóttir yfirsálfræðingur sálfræðiþjónustu LSH fræða okkur betur um þessar stöður. Berglind lætur af störfum um mánaðarmótin og Erla Björg Birgisdóttir, sérfræðingur í klínískri sálfræði tekur við sem yfirsálfræðingur. Við óskum Erlu Björgu líka til hamingju með sína stöðu og þökkum Berglindi ómetanlegt starf í þágu sérfræðinga í klínískri sálfræði.

Næsti félagsfundur FSKS

verður haldinn miðvikudaginn 22. mars 2023 kl 16:30 í samkomusalnum á LSH-Kleppi. Athugið að þetta er viku seinna en áður var auglýst!

Á fundinum munum við fara yfir stöðu mála varðandi samninga við SÍ, rætt verður um stöðuna í sálfræðiþjónustu Heilsugæslunnar, vinnudagur um sérfræðiviðurkenninguna kynntur og Berglind Guðmundsdóttir yfirsálfræðingur LSH mun fræða okkur um stöður sérfræðinga við geðdeild LSH sem voru nýverið auglýstar til umsóknar.