Félagið

Félag sérfræðinga í klínískri sálfræði (FSKS) var stofnað 11. febrúar 1994. Félagið er sjálfstætt fagfélag.

Rétt til að kalla sig sálfræðing á Íslandi hafa þeir sem stundað hafa að lágmarki fimm ára háskólanám sem lýkur með embættisprófi í sálfræði og hafa hlotið löggildingu samanber lög um sálfræðinga.

Löggiltir sálfræðingar geta hlotið sérfræðiviðurkenningu frá Landlæknisembættinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum samkvæmt reglugerð um sérfræðileyfi. Núverandi reglugerð tók gildi árið 2012, með áorðnum breytingum árin 2015, 2017 og 2018.

Fyrsta reglugerðin um sérfræðileyfi sálfræðinga tók gildi árið 1990 og fyrstu sérfræðingar í klínískri sálfræði fengu sérfræðiviðurkenningu árið 1992.

Grunnnám í sálfræði sem leiðir til löggildingar er tiltölulega breitt nám, sem býr nemendur undir hinar ýmsu greinar sálfræðinnar. Verksvið og störf sálfræðinga eru fjölbreytt og þróun þekkingar hröð, sem undirstrikar mikilvægi sérhæfingar og formlegs sérfræðináms í sálfræði sem er endurskoðað með reglubundnum hætti. Almennt talað ýtir sérhæfing undir þróun heilbrigðisvísinda og leiðir til betri og árangursríkari þjónustu við skjólstæðinga.